Innlent

Lettnesk kona flytur inn fólk

Forysta Alþýðusambands Íslands lagði fyrir miðstjórnarfund í gær drög að greinargerð um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Í skýrslunni kemur m.a. fram að lettnesk kona, Ilona Wilke, hafi flutt inn tugi Letta og Litháa á stuttum tíma til starfa í fjölmörgum fyrirtækjum, aðallega í byggingariðnaði, undir því yfirskyni að hún selji þjónustu. Talið er að hún hafi verið manna stórtækust í innflutningi á vinnuafli frá Eystrasaltslöndunum - innflutningi sem verkalýðshreyfingin gagnrýnir harðlega. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst hefur Ilona Wilke verið frumkvöðull í því að nýta sér glufu í reglum um frjálst flæði á þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt þessari glufu er hægt að flytja inn vinnuafl til ákveðinna verkefna í 90 daga á þeirri forsendu að þar sé verið að kaupa þjónustu. Vinnuaflið kemur m.a. til að sinna rútubílaakstri. Vinnuafl er einnig flutt inn til að sinna byggingavinnu þegar viðskipti eiga sér stað við lettnesku stálgrinda- og gluggaverksmiðjuna UBB. Það fer svo brott innan tilskilins tíma og þegar verkefninu er lokið. Ilona Wilke hefur verið búsett á Íslandi um árabil. Hún tengist fyrirtækjasamsteypu í Þverholti 21 í Reykjavík, sem rekur m.a. Innheimtunetið, Viðskiptanetið og Plúskort, sem barnsmóðir Arnar Karlssonar tamningamanns, bróður Benedikts Karlssonar, sem er einn af forystumönnum Innheimtunetsins. Verkalýðshreyfingin telur þessi fyrirtæki sinna starfsmannaleigu í gegnum viðskipti við Lettland. Benedikt vildi engar upplýsingar gefa þegar Fréttablaðið heimsótti hann í Þverholtið í fyrradag, hvorki um fyrirtækin né Ilonu, en sagði fyrirtækin ekki reka starsmannaleigu né tengjast Ilonu neitt í viðskiptum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×