Erlent

Banvæn veira send fyrir mistök

Algengt er að hættuleg veiruefni séu send á milli rannsóknarstofa, jafnvel heimshorna á milli. Stórhættuleg flensuveira, sem hægt væri að nota til að búa til banvæn sýklavopn, var þannig send frá Bandaríkjunum til alls átján landa. Nú vilja yfirvöld að þessari veiru verði eytt. Bandarískir meinafræðingar sendu sýnishorn af svokallaðri Asíuinflúensu til alls 3700 rannsóknarstofa í átján löndum en þessi flensa olli heimsfaraldri árið 1957 þegar allt að fjórar milljónir manna létust af hennar völdum. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir algengt að svona sýnishorn séu send landa á milli. Rannsóknarstofur um allan heim noti sýnishornin til að búa til prófefni svo þær geti greint þessar veirur, ef svo vildi til að þær gerðu vart við sig. Þetta veirutilfelli er hins vegar sérstaklega hættulegt þar sem þessi flensa hefur ekki stungið sér niður í áratugi og ekkert mótefni er til gegn henni. Klaus Stohr, inflúensusérfræðingu WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, segir veiruna auðveldlega geta borist auðveldlega manna á milli. Og hann segir þá sem fæddir séu eftir 1968 hafa ekkert ónæmi fyrir henni. Aðaláhyggjurnar eru hins vegar þær að óprúttnir aðilar eða hryðjuverkahópar komist yfir þessa veiru og noti hana til að búa til einhvers konar sýklavopn því þá væri voðinn vís. Ísland er ekki meðal þeirra landa sem fengu veiruna senda, en um það skapaðist örlítill ruglingur á fréttamannafundi hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í dag. Stohr las þá upp þau sextán lönd sem fengið hafa veiruna senda og nefndi Ísland þegar hann ætlaði að segja Ísrael. Hann leiðrétti sig svo eftir ábendingu aðstoðarmanns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×