Viðskipti innlent

Loftleiðir leigja Bretum flugvél

Loftleiðir Icelandic hafa samið við breska flugfélagið British Midland Airways um leigu á einni Boeing 757 þotu. Samningurinn er til 6 mánaða og tekur gildi þann 13. maí næstkomandi að því er fram kemur í tilkynningu frá Loftleiðum. Starfsstöð verður í Manchester í Bretlandi en þaðan verður flogið sex sinnum í viku til Dulles-flugvallar í Washington í Bandaríkjunum. Loftleiðir Icelandic er dótturfyrirtæki FL Group og annast öflun leiguverkefna. Á vegum Loftleiða Icelandic sér Icelandair nú um verkefni fyrir aðila í Norður- og Suður-Ameríku, Evrópu og Miðausturlöndum með samtals sex Boeing 757 flugvélum og þremur Boeing 767 breiðþotum, en vélarnar eru allar reknar á flugrekstrarskírteini Icelandair. British Midland Airways var stofnað árið 1938 og er annað stærsta áætlunarflugfélag Bretlands með um 40 þotur í rekstri. Félagið flutti rúmlega 10,5 milljónir farþega árið 2004 og býður yfir 2000 brottfarir í viku hverri. British Midland Airways er í eigu Lufthansa, SAS og BBW og er jafnframt meðlimur í Star Alliance.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×