Viðskipti innlent

Þáttur kaupir tvo þriðju í Sjóvá

Íslandsbanki hf. og Þáttur eignarhaldsfélag ehf. hafa komist að samkomulagi um kaup Þáttar á 66,6 prósent hlutafjár í Sjóvá fyrir 17,5 milljarða króna. Íslandsbanki mun áfram eiga 33,4 prósent hlutafjár í Sjóvá og samstarf bankans og vátryggingarfélagsins, einkum á sviði sameiginlegrar vöruþróunar og markaðsfærslu, verður með óbreyttum hætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka og Sjóvá. Í tilkynningunni segir enn fremur að markmið nýrra eigenda Sjóvá sé að treysta sterka markaðsstöðu félagsins enn frekar með aukinni sókn samhliða eðlilegu aðhaldi í rekstri. Sterk fjárhagsstaða verði jöfnum höndum nýtt sem grunnur fyrir öflugri þjónustu og auknar fjármagnstekjur. Samhliða viðskiptunum hefur verið ákveðið að stofna öflugt fjárfestingarfélag í eigu Íslandsbanka, Þáttar og Sjóvá. Þáttur er í eigu fjárfestingarfélagsins Milestone ehf., en eigendur þess eru Ingunn Wernersdóttir, Karl Wernersson og Steingrímur Wernersson. Félagið hefur á undanförnum árum einbeitt sér fyrst og fremst að fjárfestingum innanlands og á meðal annars 12,5% hlutafjár í Íslandsbanka. Með kaupunum á ráðandi hlut í Sjóvá hefur verið tekin ákvörðun um þátttöku til langs tíma í rekstri stórra og traustra fjármálafyrirtækja á Íslandi. Íslandsbanki keypti allt hlutafé í Sjóvá fyrir átján mánuðum fyrir 19,4 milljarða króna en söluverðið til Þáttar samsvarar 26,2 milljörðum króna heildarverðmæti félagsins. Við söluna innleysir bankinn 3,4 milljarða króna hagnað fyrir skatta af selda hlutnum auk þess sem Sjóvá hefur greitt Íslandsbanka 3,5 milljarða króna í arð frá því bankinn eignaðist félagið. Salan styrkir eiginfjárgrunn Íslandsbanka um ríflega 15 milljarða króna og miðað við núverandi eiginfjárstefnu bankans skapast að öðru óbreyttu svigrúm fyrir mögulegan 200 milljarða króna útlánavöxt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×