Viðskipti innlent

Ætlum að stækka sjóðinn

Hallarbylting var gerð í Sparisjóði Hafnarfjarðar á aðalfundi sjóðsins í fyrrakvöld. Stóð fundurinn á fimmta tíma. Listi sitjandi stjórnar var felldur með eins atkvæðis mun í kosningu gegn lista skipuðum fimm stofnfjáreigendum. Nýja stjórnin er skipum þeim Eyjólfi Reynissyni, Ingólfi Flygenring, Páli Pálssyni, Trausta Ó. Lárussyni og Þórði Magnússyni. Páll hefur tekið við starfi stjórnarformanns SPH. Páll segir að hann og fleiri stofnfjáreigendur hafi verið ósáttir við rekstrarniðurstöðu SPH undanfarin ár og vilji því ná fram breytingum. Hann segir hagnað sjóðsins tilkominn vegna mikils gengishagnaðar en að afkoma af bankastarfsemi sé óviðunandi. Ný stjórn ætlar að leitast við að tryggja rekstur SPH sem sé sterk og góð fjármálastofnun. Páll sér meðal annars tækifæri í því að stækka hlutdeild SPH á fyrirtækjasviði. "Við boðum hugmyndir um ákveðna útrás og ætlum að stækka sjóðinn," segir Páll. Hann bætir því við að höfuðstöðvar Sparisjóðsins verði áfram í Hafnarfirði. Sparisjóður Hafnarfjarðar gæti því bæst í hóp hinna stóru sparisjóðanna, SPRON og Sparisjóðs vélstjóra, sem hafa boðað frekari vöxt á starfseminni. Stofnfé SPH er ekki nema brot af þriggja milljarða króna eigin fé hans, aðeins fimmtán milljónir, og er í eigu 47 stofnfjáreigenda. Árni Grétar Finnsson, sem sat í gömlu stjórninni og var fundarstjóri, segir að þetta hafi komið sér mjög á óvart. Hann hefur ekki orðið var við óánægju annarra stofnfjáreigenda fyrr en nú. Stjórn hafi undantekningarlaust verið sjálfkjörin og hélt hann að fara þyrfti aftur til ársins 1940 til að finna aðalfund þar sem síðast var kosið var í stjórn. Árni Grétar segist vona að ný stjórn fari ekki út í miklar breytingar á starfsemi sjóðsins. "Sparisjóðurinn hefur reynst farsæl stofnun í Hafnarfirði. Síðasta ár kom mjög vel út eftir nokkur erfið ár á undan." Matthías Á. Mathiesen lét af störfum sem stjórnarformaður SPH fyrir fundinn en hann hefur verið stjórnarformaður sjóðsins í 47 ár og var ennfremur sparisjóðsstjóri um tíma.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×