Viðskipti innlent

Telur hátt olíuverð draga úr áhuga

Forstjóri bílaumboðsins Heklu telur að hátt verð á díselolíu sé í andstöðu við tilganginn með afnámi þungaskatts og dragi úr áhuga almennings á að eignast díselbíl. Aðeins um þrjú prósent af seldum smábílum hjá Heklu eru díselbílar. Víða erlendis þar sem dísellítrinn kostar minna en bensínlítrinn eru díselbílar allt að helmingi seldra bíla. Tryggvi Jónsson, forstjóri Heklu, telur kerfisbreytinguna af hinu góða en að ómögulegt sé að ná fram þeim áhrifum sem upphaflega stóð til, þ.e. að hvetja landsmenn til að nota díselbíla, lækki ekki verðið á díselolíunni. Hann bendir á að díselvélar séu dýrari en bensínvélar og að það taki þann sem kaupi díselbíl um þrjú ár að vinna upp þann kostnaðarmun miðað við 20 þúsund kílómetra akstur á ári. Hann telji því að það verði því miður engin stefnubreyting hjá fólk. Aðspurður hvað hann telji að stjórnvöld ættu að gera segir Tryggvi að hann vildi gjarnan að lítraverð á díselolíu lækkaði og yrði þá helst lægra en bensínlítrinn til þess að hvetja fólk til þess að skipta yfir á díselbíla. Spurður hvað það þurfi að lækka verðið mikið þannig að fólk sjái ávinning af díselbílum segist Tryggi ekki þora að fullyrða um það en ítrekar að nauðsynlegt sé að verð á dísleolíu sé ekki hærra en á bensíni. Mikilvægt sé að sá kostnaður sé sá sami því að eyðslan á díselolíu sé um 30 prósentum minni en á bensíni að meðaltali, en þar sparist þá fé.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×