Erlent

Palestínskir byssumenn hertóku ráðhúsið í Betlehem

Meira en tuttugu palestínskir byssumenn hertóku ráðhúsið í Betlehem á Vesturbakkanum fyrir hádegið í dag. Mennirnir óðu inn í húsið hlaðnir vopnum, skipuðu starfsfólki að drífa sig út og læstu svo hurðum ráðhússins. Nokkrir mannanna fóru svo upp á þak og miðuðu byssum að mannfjölda sem hafði safnast saman fyrir utan húsið. Mennirnir, sem eru úr armi Fatah-hreyfingarinnar, hótuðu öllu illu og kröfðust þess að 320 félagar ú hreyfingunni fengju störf hjá palestínsku öryggisgæslunni. Þá fóru þeir einnig fram á fjárhagsaðstoð frá stjórnvöldum.

Nokkur hundruð lögreglumenn komu þegar á vettvang og rýmdu svæðið í nágrenni ráðhússins, þar sem mannfjöldanum var talin stafa ógn af byssumönnunum. Þá var öllum nærliggjandi götum lokað.

Eftir nærri klukkutíma stapp tókst loks að fá uppreisnarmennina út úr ráðhúsinu. Ekki liggur alveg fyrir hvernig tókst að leysa deiluna, en líklega hefur íhlutun borgarstjórans í Bethlehem haft sitt að segja. Hann lofaði að fara yfir kröfur mannanna og sjá hvað hann gæti gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×