Innlent

Um hundrað manns í hringflugi

MYND/GUNNAR V. ANDRÉSSON
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri Reykjavíkur lögðu í morgun af stað í hringflug Listahátíðar í Reykjavík og Flugfélags Íslands. Um eitt hundrað manns taka þátt í fluginu á tveimur Fokker 50 vélum. Fyrsti áfangastaður var Ísafjörður þar sem tvær sýningar voru opnaðar á tíunda tímanum, önnur í Slunkaríki og hin í Edinborgarhúsinu. Næsti áfangastaður var Akureyri þar sem tvær sýningar voru opnaðar í Listasafninu á Akureyri klukkan ellefu. Þá er eftir að opna sýningu í Skaftfelli á Seyðisfirði klukkan tvö og að lokum sýningu í Vestmannaeyjum klukkan fimm. Hringfluginu lýkur svo í Reykjavík um hálfsjöleytið. Fleiri sýningar verða reyndar opnaðar í dag, bæði undir Eyjafjöllum og í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Allar eru sýningarnar tengdar yfirskrift hátíðarinnar: tími, rými, tilvera, og því eru verk listamannanna sem setja upp á öllum þessum stöðum samtengd og eiga að mynda eina heild. Uppselt er á tónleika mongólska barkasönghópsins Huun Huur Tu í kvöld en enn er hægt að fá miða á tónleikana á morgun. Einnig er uppselt á tónleika söngkonunnar Anne Sofie von Otter og Bergmál Ragnhildar Gísladóttur. Að sögn Heiðrúnar Harðardóttur, miðasölustjóra Listahátíðar, er rífandi sala á alla atburði hátíðarinnar en ekki er orðið uppselt nema á örfáa atburði svo enn er von fyrir áhugasama að kaupa miða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×