Erlent

Hamfarir og stríð fréttir ársins

Árið 2005 var ár hamfara og stríðs og margir kveðja það með litlum söknuði. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem var gerð í 27 löndum með viðtölum við rúmlega 30 þúsund manns.

Tvær fréttir keppa um það að vera fréttir ársins, og þá er alveg sama hvort verið er að spyrja fólk í Evrópu, Afríku, Ameríku eða Asíu. Það eru flóðbylgjan í Asíu og stríðið í Írak. Stríð, hryðjuverk og náttúruhamfarir hafa einkennt þetta ár sem er að líða og margir eru bara lukkulegir með að það skuli brátt vera liðið.

Fréttalisti ársins, að mati almennings um víða veröld, lítur svona út. Fimmtán prósent völdu stríðið í Írak og jafn margir flóðbylgjuna í Asíu, sem varð reyndar á annan í jólum 2004. Níu prósent völdu fellibylinn Katrínu sem eyðilagði New Orleans í Bandaríkjunum, sex prósent dauða páfa, fjögur prósent sprengjutilræðin í neðanjarðarlestakerfi Lundúna, þrjú prósent hlýnun jarðarinnar, jafn margir fuglaflensuna og tvö prósent jarðskjálftann í Pakistan og sprengingarnar á Bali.

Athyglisverðast fannst GlobeScan, fyrirtækinu sem gerði kannanirnar, að almenningur var nokkuð sammála um hverjar væru fréttir ársins, þó að spurt væri í 27 löndum víðs vegar um heiminn. Og fólk er þegar farið að hafa skoðun á frétt ársins 2006. Það verður fuglaflensan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×