Erlent

Landamærum Gaza og Egyptalands lokað

MYND/REUTERS

Landamærum Gaza og Egyptalands var lokað í morgun, þegar palestínskir lögreglumenn réðust inn í landamærastöð og hröktu evrópska eftirlitsmenn á flótta.

Eftirlitsmennirnir áttu fótum sínum fjör að launa þegar um eitt hundrað bálreiðir palestínskir lögreglumenn stormuðu inn í landamærastöðina og létu öllum illum látum. Skutu upp í loft og hótuðu öllu illu. Að sögn vitna komu aðgerðir þeirra til vegna þess að kollegi þeirra í lögreglunni var myrtur í fjölskylduerjum á Gaza.

Eftirlitsmennirnir við stöðina, sem eiga að tryggja samning Ísraelsmanna og Palestínumanna um landamærin, vissu ekki hvernig þeir ættu að bregðast við og sáu því þann kost vænstan að leggja á flótta. Yfirmaður palestínskra öryggissveita við landamærin bað lögreglumennina þráfaldlega að yfirgefa svæðið, en án árangurs. Þar sem evrópskir eftirlitsmenn verða að vera við landamærin samkvæmt ákvæði í samningnum um þau, var ekki um neitt annað að ræða en að loka landamærunum tímabundið. Lögreglumennirnir krefjast þess að banamaður kollega þeirra verði tekinn af lífi, og engum palestínskum embættismanni verði hleypt frá Gaza fyrr en þeir faí staðfest að svo verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×