Erlent

80 skæruliðar hafa verið felldir í herferð til að koma á friði í Kongó

Hersveitir Sameinuðu þjóðanna og stjórnvalda í Kongó hafa fellt 80 skæruliða á einni viku í mikilli herferð, sem hefur það markmið að koma á friði í landinu á næstu mánuðum. Langvarandi borgarastyrjöld í Kongó er talin hafa kostað fjórar milljónir mannslífa. Stríðinu var stundum líkt við heimsstyrjöld, því Kongó er á stærð við vestur Evrópu og þarna var fjöldi ríkja með hersveitir auk fjölda innlendra og erlendra skæruliðahópa. Formlega lauk átökum árið 2003 en ýmsir hópar skæruliða hafa neitað að leggja niður vopn. Sautján þúsund manna friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna er í landinu. Á síðustu dögum hafa eitt þúsund hermenn Sameinuðu þjóðanna og sex þúsund stjórnarhermenn háð harða bardaga gegn kongólskum og úgandískum skæruliðum. Talsmaður friðargæslusveitanna segir að skæruliðar séu á flótta í gegnum frumskóginn og að þeir verði eltir uppi. Fyrir júnílok á næsta ári á að halda kosningar í landinu og markmið Sameinuðu þjóðanna er að friður ríki sem víðast í landinu þegar þær fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×