Erlent

Framselja fangavörð

AP-mynd

Dómstóll í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að fyrrverandi fangavörður, í útrýmingarbúðum nasista, skuli framseldur til Úkraínu. Fangavörðurinn hefur barist fyrir bandarískum dómstólum í meira en þrjátíu ár.

John Demdansjúk er sakaður um að hafa verið fangavörður í Treblinka útrýmingarbúðunum, í Póllandi, og gekk þar undir nafninu Ívan grimmi. Mál hans kom upp á sjöunda áratugnum og þá var Demdansjúk sviptur bandarískum ríkisborgararétti og framseldur til Ísraels. Þar var hann dæmdur til dauða.

Hæstiréttur Ísraels komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að Demdansjúk væri ekki Ívan grimmi. Honum var því sleppt. Hann sneri þá aftur til Bandaríkjanna og fékk þar ríkisborgararétt sinn á nýjan leik. Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur svo fundið ný gögn sem þykja sanna að Demdansjúk hafi vissulega verið fangavörður í Treblinka, jafnvel þótt hann sé ekki Ívan grimmi.

Hann var því sviptur ríkisborgararétti á nýjan leik, og gefin fyrirmæli um að hann skyldi framseldur til föðurlands síns, sem er Úkraína. Lögfræðingar Demdansjúks áfrýjuðu þeirri ákvörðun á þeim forsendum að hann yrði pyntaður við heimkomuna. Því vísaði dómstóll á bug, í dag, og staðfesti að Demdansjúk skyldi framseldur. Lögfræðingar hans segja að málinu verði enn áfrýjað. John Demdansjúk er nú áttatíu og fimm ára gamall.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×