Erlent

Alvarleg mistök gerð í Beslan í fyrra

Frá aðgerðum hersins í Norður-Ossetíu í fyrra.
Frá aðgerðum hersins í Norður-Ossetíu í fyrra. MYND/AP

Lögreglu- og sérsveitarmenn gerðu mörg alvarleg mistök þegar meira en þrjú hundruð gíslar týndu lífi í Beslan í september í fyrra. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar rússneska þingsins vegna málsins.

Beslan í byrjun september 2004 . F yrsti skóladagurinn breyttist í martröð þegar tjetjenskir uppreisnarmenn tóku meira en ellefu hundruð börn og kennara í gíslingu. Eftir þriggja daga umsátursástand réðust rússneskar sérsveitir inn í skólann og þrjú hundruð þrjátíu og einn týndi lífi, meirihlutinn börn.

Rússneska þingið skipaði skömmu síðar rannsóknarnefnd vegna málsins og hún skilaði í dag skýrslu. Niðurstaðan er afdráttarlaus. Formaður nefndarinnar segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að aðgerðir yfirvalda til varnar hryðjuverkum séu ekki fullnægjandi og að lögregla í Ingúsetíu og Norður-Ossetíu hafi sýnt af sér vanrækslu og óvarkárni við umsátrið í Beslan.

Auk þess að fara rangt að þegar ráðist var inn í skólann telur þingnefndin að lögregluyfirvöld í Beslan hafi sýnt vítavert kæruleysi með því að hafa ekki betri öryggisgæslu við skólann á fyrsta degi septembermánaðar. Aðeins fáeinum dögum áður hafi innanríkisráðuneyti landsins sent símskeyti þar sem farið var fram á að öryggisgæsla yrði hert við alla skóla. Daginn sem hörmungarnar dundu yfir var einn lögreglumaður á vakt við grunnskólann í Beslan og hann var líka tekinn í gílsingu.

Enginn verður þó dreginn til ábyrgðar enn um sinn, því enn á eftir að rannsaka málið frekar og öll kurl verða ekki komin til grafar fyrr en á nýju ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×