Erlent

Mikil ofankoma

Íbúar í austurhluta Englands eru hvattir til að láta bílferðir eiga sig næsta sólarhringinn vegna mikillar ofankomu og flughálku á vegum. Í Frakklandi hefur líka víða kyngt niður snjó í allan dag.

Mikill snjór var víða í Englandi í dag og ekkert lát hefur verið á snjódrífunni nú í kvöld.

Íbúar Frakklands hafa líka fengið líka sinn skerf af jólasnjónum sem aldrei kom hingað á fróna þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir til jólasveinsins.

En allt er gott í hófi og líklegast hefur mörgum þótt nóg um í Nancy og Normandí í Frakklandi, þegar snjólagið var farið að skipta tugum sentimetra nú undir kvöld. Enda eru íbúarnir þar ekki vanir slíkum tilþrifum frá veðurguðunum og bílar fæstir búnir undir slíka vetrarfærð. Þó að engin alvarleg slys hafi enn orðið, hafa fjölmargir misst bíla sína út af vegum og lögreglan hefur haft í nógu að snúast.

Og þó að bíleigendur í Bretlandi hafi kannski verið eilítið betur undirbúnir en félagar þeirra í Frakklandi, setti stórhríð mark sitt á umferð í Englandi í dag. Allt frá Newcastle í austri til Whitehaven á vesturströndinni hefur snjónum beinlínis kyngt niður og færðin víða eins og við þekkjum af snjóþungum heiðum Íslands.

Veðurfræðingar spá mikilli ofankomu í Bretlandi næsta sólarhringinn eða svo og fólk er eindregið hvatt til að notast við almenningssamgöngur eða hreinlega búa sig vel og ganga í vinnunna á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×