Erlent

Fjöldagröf í borginni Karballah

Fjöldagröf með líkum fjölmargra Sjíta fannst í borginni Karballah í Írak í gær. Talið er að fólkið hafi verið myrt í valdatíð Saddams Hússein.

Það voru verkamenn sem voru að grafa fyrir vatnsleiðslum sem fundu grafirnar fyrir tilviljun. Lögregla var þgar kölluð á vettvang og svæðið í kring var girt af. Sérfræðingar hafa síðan rannsakað grafirnar og flest bendir til að líkin séu af hluta þeirra þrjátíu þúsund Sjíta sem Saddam Hússein lét myrða eftir Persaflóastríðið í byrjun síðasta áratugar. Fötin utan af fókinu benda til að í gröfinni hafi verið karlmenn, konur og börn. Enn liggur ekki fyrir hve mörg lík hafa fundist í gröfinni, en þó er ljóst að þau skipta tugum. Síðan Saddam var steypt af stóli árið 2003 hafa mörg þúsund lík fundist í nokkrum fjöldagröfum í heröðum þar sem Sjítar eru í meirihluta.

Og það er meira búið að ganga á í Írak í dag. Í borginni Khaldiyah hafa brotist út mikil mótmæli, þar sem íbúar saka írakskar og bandarískar hersveitir um að hafa eyðilaggt híbýli þeirra. AP fréttastofan hefur eftir nokkrum íbúum að heilu fjölskyldunum hafi beinlínis verið sparkað út af heimilum sínum og síðan hafi skriðdrekar og þyrlur skotið á venjuleg íbúðarhús.

Í Bakúba kom til átaka á milli lögreglu og fjölmargra mótmælenda, sem létu öllum illum látum í mótmælaskyni við nýafstaðnar þingkosningar. Lögreglumenn skutu hvað eftir annað upp í loft til að dreifa lýðnum og þá voru fjölmargir óróaseggir handteknir.

Búist er við að endanlegar niðurstöður úr kosningunum muni liggja fyrir eftir um það bil viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×