Erlent

Bætti tvö heimsmet í sjósundi við Suðurpólinn

Líklega er óhætt að fullyrða að Lewis Gordon er ekki eins og fólk er flest. Á meðan hundruð milljóna manna um allan heim eru að undirbúa jólin á þessum árstíma, til dæmis að kaupa gjafir og skreyta heima hjá sér í mestu makindum, ákvað hann að gera tvær heimsmetstilraunir í ísköldum sjónum á Suðurpólnum. Og það er skemmst frá því að segja að Gordon sló bæði metin.

Fyrra heimsmetið var syðsta sjósund sögunnar, það er að segja, syðst á jarðarkúlunni miðað við breiddargráðu. Kappinn stakk sér til sunds nærri Peterman-eyju á Suðurskautinu og synti einn kílómetra á aðeins rúmum átján mínútum, en hitastig sjávar var alveg við frostmark. Nokkrum dögum síðar bætti hann heimsmetið í lengsta samfellda sundinu á öðrum hvorum pólnum, en þá synti hann eina mílu, eða tæplega 1700 metra, á rúmum hálftíma.

Að sögn læknis sem var með í för varð Gordon ekki meint af volkinu, þótt líkamshiti hans hafi lækkað um tæpa gráðu meðan á sundinu stóð. Ekki fylgir sögunni hvað ofurhuginn hyggst svo gera þegar páskaundirbúningurinn stendur sem hæst innan nokkura mánuða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×