Erlent

Verkfallsmenn fá sektir

Almenningssamgöngur í New York eru að komast í samt lag því verkfalli starfsmanna var aflýst í dag. Tjón vegna verkfallsins nemur milljónum dollara. Verkfallsmönnunum verður ekki sýnd nein miskunn og verða þeir látnir greiða háar sektir.

Verkfallið stóð í þrjá daga og lamaði gersamlega stærsta almenningssamgöngukerfi landsins. Verkfallinu var haldið til streitu þrátt fyrir að það hafi verið ólöglegt, og dómari hafi dæmt verkalýðshreyfinguna til þess að greiða eina milljón dollara á dag, í dagsektir. Almennir starfsmenn sleppa heldur ekki, þar sem tveggja daga laun eru dregin af þeim, fyrir hvern einn dag sem þeir voru í verkfalli.

George Pataki, ríkisstjóri, sagði að ekki kæmi til greina að sleppa mönnum við sektirnar. Þær verði greiddar. Þótt verkfallinu sé lokið þýðir það ekki að sættir hafi náðst. Verkalýðsfélagið segir að ef ekki náist samkomulag geti komið til annars verkfalls. Það yrði sömuleiðis ólöglegt, samkvæmt lögum sem banna verkföll í almenningssamgöngum. Þetta er enda fyrsta slíka verkfallið í Bandaríkjunum í tuttugu og fimm ár.

New York búar þóttu bregðast ótrúlega vel við verkfallinu og gripu til ótrúlegustu ráða til þess að komast í og úr vinnu. Þannig mátti sjá virðulega verðbréfasala og bankamenn geysast áfram á línuskautum, og reiðhjól seldust fljótlega upp, í verslunum borgarinnar.

Þá voru New York búar einnig ónískir á að bjóða far með einkabílum sínum, og þykir mönnum þetta enn ein sönnun þess að þegar í harðbakkann slær, taka New York búar höndum saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×