Erlent

Fótspor frá ísöld

Vísindamenn rannsaka nú fótspor eftir hóp af fólki sem gekk um óbyggðir Ástralíu á síðustu ísöld. Á sporunum má sjá að börn hafa hlaupið í hringi í kringum foreldra sína, sem héldu beinni stefnu. Enginn veit hvert fólkið var að fara, sem gekk framhjá Willandra vötnum í Nýja Suður-Wales, fyrir meira en tuttugu þúsund árum. Þaðan af síður er vitað hvað varð um þetta fólk.

Fornleifafræðingar hafa afhjúpað meira en 450 fótspor sem fólkið hafði skilið eftir sig í mjúkum leir. Leirinn hafði svo harðnað, og meiri leir og sandur lagst yfir fótsporin, og geymt þau í tuttugu þúsund ár.

Veður og vindar hafa svo afhjúpað þau á nýjan leik. Á sporunum má sjá að fólkið hefur verið á ákveðinni leið, því það heldur beinni stefnu. Börn hafa verið með, í ferðinni, og þau hafa hlaupið í hringi í kringum hina fullorðnu, og verið að leika sér.

Hvergi í heiminum hafa fundist jafn mörg fótspor úr fornöld, og þau eru jafnframt þau elstu sem fundist hafa í Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×