Erlent

Segir Hvíta Húsið ljúga

MYND/AP

Bandaríkjamenn þvertaka fyrir það að þeir hafi pyntað Saddam Hússein. Sjálfur stendur hann hins vegar fast við sitt og segir talsmenn Hvíta Hússins lygara.Við réttarhöldin yfir Saddam og sjö samstarfsmönnum hans í gær sagði Saddam að hann hefði mátt þola barsmíðar allan tímann sem hann hefði verið í haldi Bandaríkjamanna. Ummerki um það mætti sjá á öllum líkama hans.

Þessu neitaði talsmaður Hvíta Hússins með öllu í gær. Hann sagði Saddam hafa notið þveröfugrar meðferðar við fanga sem voru handsamaðir í Írak í stjórnartíð hans sjálfs. Þetta væri í fyrsta skipti sem Saddam héldi þessu fram og ljóst að tilgangurinn væri að benia athyglinni frá réttarhöldunum sjálfum.

Í morgun hófust réttarhöldin á ný og þar ítrekaði Saddam að hann hefði trekk í trekk verið barinn af bandarískum hermönnum. Að minnsta kosti þrír læknar gætu staðfest þetta, enda hefðu þeir skoðað hann strax að barsmíðunum loknum. Saddam sagði að sum sáranna hefðu gróið, en önnur væru enn til staðar eftir allan þennan tíma. Talsmenn Hvíta Hússins væru lygarar, eins og berlega hefði komið í ljós þegar því hafi verið haldið fram að Írakar byggju yfir gereyðingarvopnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×