Erlent

Finnar hyggjast taka upp lög sem banna vændiskaup

Mynd/Reuters

Finnar hyggjast taka upp samskonar lög gegn vændiskaupum og gilda í Svíþjóð en þar er kynlífskaup refsiverð. Finnska ríkisstjórnin lagði fram frumvarp til laga í vikunni um að vændiskaup verði bönnuð í Finnlandi. Dómsmálaráðherra Eistlands, Rein Lang, hefur áhyggjur að ef slík lög verði tekin upp í Finnlandi, muni straumur svokallaðra kynlífsferðamanna aukast til Eistlands. Hann hefur því ákveðið að leggja fram samkonar frumvarp fyrir eistneska þingið. Lang, leggur áherslur á að frekara samstarf milli landanna sé þörf við lagasetningu í málum sem hafa áhrif í öðrum ríkjum.

Samkvæmt finnska frumvarpinu geta vændiskaup í Finnlandi leitt til sex mánaða fangelsis eða sektar. Þá er einnig verið að skoða refsiákvæði vegna tilrauna til kaupa þjónustunnar. Svíar bönnuðu vændiskaup árið 1999. Sá sem brýtur gegn banninu á yfir höfði sér sektir eða allt að sex mánaða fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×