Erlent

Algjör ringulreið

Algjör ringulreið ríkir í New York borg vegna allsherjarverkfalls starfsmanna samgöngukerfis borgarinnar. Milljónir manna þurfa líklega að ganga borgina þvera og endilanga í nístingskulda annan daginn í röð til að komast í vinnuna. Starfsfólkið sem er í verkfalli gæti átt yfir höfði sér fangelsisdóma, þar sem verkfallið er ólöglegt.

Enn hefur ekki náðst samkomulag við starfsmenn almennings samgöngukerfisins í borginni sem hófu verkfall í gær. Allt útlit er fyrir að annan daginn í röð liggi allar almenningssamgöngur í New York niðri. Eins og þessar myndir bera með sér voru götur víða troðfullar af fólki á annatímum í gær, enda notast að jafnaði sjö milljónir manna við lestar og strætisvagna á hverjum degi í New York. Þetta fólk gekk eða notaði reiðhjól í gær.

Leigubílar voru óvenju þétt setnir í borginni, enda eflaust margir vinnu- og skólafélagar ákveðið að skjóta saman í einn gulann.

Þá mátti víða sjá miklar biðraðir við lestarstöðvar, og margir virtust hreinlega ekki hafa trúað því að verkfallið væri í raun og veru skollið á. Við Pensylvaníu lestarstöðina söfnuðust þúsundir manna saman í lok vinnudags, en engar komu lestarnar.

Flestir ferðuðust þó á tveimur jafnfljótum og borgarstjórinn Michael Bloomberg sýndi íbúum borgarinnar samstöðu og ákvað að ganga í vinnuna.

Í lok vinnudags mynduðust svo margra kílómetra langar bílaraðir við borgarmörkin og íbúar úthverfanna voru fleiri klukkustundir á leiðinni heim til sín.

Samkvæmt lögum í New York mega opinberir starfsmenn ekki fara í verkfall og dómstóll í New York dæmdi í gær verkalýðsfélagið sem stendur fyrir verkfallinu til að greiða eina milljón dollara á hverjum degi sem verkfallið stendur. Þá missa starfsmenn tveggja daga laun fyrir hvern dag sem verkfallið stendur samkvæmt úrskurði dómstólsins. Ef verkfallið dregst á langinn gætu starfsmenn hreinlega átt yfir höfði sér fangelsisdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×