Erlent

Elton John staðfestir samvist sína

Elton John og ástmaður hans eru meðal sexhundrað áttatíu og sjö samkynhneigðra para sem ætla að staðfesta samvist sína opinberlega, þegar ný lög taka gildi í Bretlandi á morgun.

Þeir Elton John og David Furnish, hinn kanadiski ástmaður hans, héldu sameiginlegt steggja/gæsapartí á næturklúbbi í Lundúnum, í gærkvöldi. Þar var ekkert til sparað og fræga og fína fólkið mætti í kippum. Haft er fyrir satt að partíið hafi kostað yfir ellefu milljónir króna.

Það er auðvitað fáránleg upphæð, en kannski ennþá fáránlegra að þetta eru tæplega eins dags vasapeningar fyrir Elton John.

En hvað um það, morgundagurinn verður hamingjudagur, ekki aðeins fyrir Elton John og Furnish, heldur einnig hundruð annarra samkynhneigðra para, sem ætla að staðfesta samvist sína opinberlega, í samræmi við ný lög sem taka gildi á morgun.

Þeir Elton og David hafa valið að festa ráð sitt í Windsor Guild Hall, þar sem Charles Prins og Camilla voru gefin saman, fyrr á þessu ári. Búist er við að partíið sem verður því samfara, kosti poppogoðið vel yfir eitthundrað milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×