Erlent

Vildu horfa í augu morðingja sona þeirra

Fimm Serbar, sem voru kvikmyndaðir þegar þeir myrtu sex múslíma í Bosníu árið 1995, voru leiddir fyrir rétt í Belgrad í dag. Mæður hinna myrtu eru viðstaddar réttarhöldin. Þær sögðust vilja horfa í augu mannanna sem myrtu syni þeirra.

Myndir af morðunum vöktu mikinn óhug, þegar þær voru sýndar við stríðsglæparéttarhöldin yfir Slobodan Milosevits, í sumar.

Á myndunum sjást Serbarnir reka sex unga múslima á undan sér, með hendur bundnar fyrir aftan bak. Múslimarnir voru allir óbreyttir borgarar.

Þeir eru látnir stilla sér upp, í fjallshlíð og svo er hafin skothríð á þá með hríðskotarifflu. Fjórir þeirra falla, helsærðir. En tveim er hlíft í þessari umferð.

Þeir eru látnir bera lík félaga sinna í nærliggjandi hlöðu, og svo eru þeir einnig skotnir til bana.

Þetta gerðist í grennd við bæinn Srebrenitsa, en talið er að yfir áttaþúsund múslimar hafi verið myrtir, eftir að serbar náðu bænum á sitt vald. Hann átti þó að vera einn af griðastöðum Sameinuðu þjóðanna, og undir vernd gæsluliða Sameinuðu þjóðanna.

Það var Ratko Mladic, hershöfðingi borníuserba sem stjórnaði aðgerðum í Strebrenitsa. Hann er eftirlýstur fyrir stríðsglæpi, og glæpi gegn mannkyninu, en hefur tekist að fara huldu höfði í tíu ár, ásamt Radovan Karadits, sem var pólitískur leiðtogi serba í Bosníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×