Innlent

Stálpípuverksmiðja enn á bið

Fulltrúar bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ hafa afturkallað lóðarúthlutun til Stálpípufyrirtækisins International Pipe and Tubing, sem hugðist reisa stálpípuverksmiðju á lóð í Helguvík. Ástæðan er árangurslaus tilraun fyrirtækisins til að fjármagna verksmiðjuna. Bæjaryfirvöld vonast þó til að lóðin verði nýtt undir annars konar málmframleiðslu eins og til dæmis álver.

Stálpípufyrirtækið International pipe and tubing mun ekki fá þá lóð í Helguvík sem þeir sóttust eftir og er vafasamt með framhaldið í þeim efnum.Lóðin sem þeim hafði verið úthlutað mun verða notuð í öðru skyni, m.a. vegna fyrirhugaðs álvers Century Aluminum. Frestur IPT, sem hefur um þriggja ára skeið reynt að ljúka fjármögnun verksmiðjunnar, hjá fjárfestingafyrirtækinu sem þeir voru í samstarfi við rann út um síðustu mánaðarmót. Þar með þótti fulltrúum í atvinnu- og hafnarráði Reykjanesbæjar fullreynt að IPT nái ekki að ljúka fjármögnun og þótti því rétt að afturkalla lóðaúthlutun, enda hafi aðrir aðilar sýnt lóðinni mikinn áhuga.

Þorsteinn Erlingsson, formaður atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar, segir það vissulega vonbrigði að ekki hafi tekist að ljúka fjármögnun stálpípuverksmiðjunnar, þó hann voni að annað og stærra verkefni taki nú við í Helguvík meðan fjármögnunartilraunir haldi áfram. Nefnilega fyrirhugað álver Century Alumininum.

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ funduðu nýverið með fulltrúum Century þar sem ákveðið var að vinna áfram að afmörkun lóðar undir álverið ásamt undirbúningi umhverfismats þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×