Erlent

14 handteknir á Spáni

Spænska lögreglan handtók í morgun fjórtán menn, sem grunaðir eru um að hafa þjálfað hryðjuverkamenn og sent þá til Íraks.

Meira en hundrað lögreglumenn tóku þátt í samræmdum aðgerðum víða um Spán í morgun. Mennirnir fjórtán voru handteknir í Katalóníu og Andalúsíu. Talið er að þeir tengist allir sömu hryðjuverkasamtökunum, sem tengjast al-Kæda í Írak. Grunur leikur á að mennirnir fjórtán hafi meðal annars þjálfað unga menn og sent þá til Íraks til að taka þátt í aðgerðum uppreisnarmanna þar. Þjóðerni þeirra sem voru handteknir í morgun hefur ekki enn verið gefið upp, en spænskir fjölmiðlar hafa eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar að margir þeirra hafi búið á Spáni um árabil.

Þetta er í fjórða sinn á aðeins nokkrum vikum sem spænska lögreglan handtekur hóp manna sem taldir eru tengjast hryðjuverkasamtökunum al-Kæda. Talsmaður spænsku lögreglunnar sagði í morgun að aðgerðunum væri ekki lokið og búast mætti við fleiri handtökum á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×