Erlent

Fundu genið sem ræður hörundslit fólks

Bandarískir vísindamenn segjast hafa fundið hluta gensins sem ræður því hvort fólk verði dökkt eða ljóst á hörund. Rannsóknin bendir líka til að mannkynið skiptist í kynþætt með öðrum hætti en talið hefur verið.

Genið sem ræður því hvort menn verði svartir eða hvítir er einn af þremur milljörðum bókastafa í stafrófi lífs á jörðu segja vísindamenn sem hafa fundið hluta gensins. Genið fannst eftir ellefu ára rannsóknir á litbrigðum fiska en niðurstöðurnar má færa yfir á mannkynið segja vísindamennirnir. Þeir segja niðurstöðurnar geta haft mikil áhrif í lækningum á húðkrabbameini, rannsóknum á vettvangi glæps og jafnvel framleiðslu snyrtivara.

Samskipti kynþátta og átök þeirra á milli í gegnum tíðina eru vísindamönnunum þó ofarlega í huga.

"Það sem er mjög merkilegt við þetta er að við fundum að kynþáttahugsun sem er svo sterk byggist á einum bókstaf í leiðabók lífs okkar," segir Dr. Keith Cheng sem stýrði rannsókninni.

Dr. Francis Collins hjá Genarannsóknastofnun Bandaríkjanna tók enn sterkar til orða: "Það sem við höfum gert er í raun að svipta hulunni af ráðgátunni um hörundslit, nokkuð sem við virðumst áður hafa lagt mjög mikla áherslu á, sennilega of mikla áherslu."

Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að skipting mannkyns í kynþætti átti sér stað á annan hátt en í fyrstu var talið. Niðurstöðurnar gefa til kynna að litbrigði manna hafi fyrst breyst eftir fólksflutninga frá Afríku fyrir fimmtíu þúsund árum en ekki fyrir og að ljós húðlitur hafi þróast til að hjálpa fólki að meðtaka sólargeisla svo hlutfall D-vítamíns í líkamanum dragist ekki saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×