Erlent

Árið 2005 það heitasta á norðurhveli

Ísbirnir eru meðal þeirra dýra sem stafar hætta af hnattrænni hlýnun.
Ísbirnir eru meðal þeirra dýra sem stafar hætta af hnattrænni hlýnun. MYND/Getty Images

Það stefnir í að árið 2005 verði það heitasta á norðurhveli frá því að mælingar hófust. Þá er útlit er fyrir að það verði það næstheitasta frá upphafi mælinga ef horft er til heimsins alls.

Þetta sýna frumniðurstöður veðurfræðinga í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þar kemur fram að frá ársbyrjun og fram til nóvemberloka hafi meðalsjávarhiti og lofthiti hafi hækkað um 0,6 gráður miðað við meðaltalshita á árinum 1880 til 2004. Hitinn er örlítið minni en árið 1998 en þá hafði veðurfyrirbærið El Ninjo áhrif til hækkunar á meðaltalshita í heiminum. Þá hafa tíu heitustu árin frá því að mælingar hófust á 19. öld komið á síðustu ellefu árum.

Þá benda niðurstöðurnar til þess að hitastig hafi hækkað meira á norðurhveli jarðar en suðurhvelinu. Samkvæmt breskum veðurfræðingum var meðalhitastigið á norðurhveli frá ársbyrjun til nóvemberloka 0,65 gráðum fyrir ofan langtímameðaltal og þar með það mesta sem mælst hefur. Meðalhiti á suðurhveli á sama tímabili var hins vegar 0,32 stigum yfir langtímameðaltali.

Þá sýna gervihnattarmyndir að heimskautaísinn á norðurhveli hefur aldrei verið minni að flatarmáli en í september síðastliðnum frá því að mælingar hófust í lok áttunda áratugarins. Sömu sögu er ekki að segja af heimskautísnum á suðurhveli jarðar en þar hafa litlar breytingar orðið á flatarmáli íssins. Þetta þykir benda til þess að norðurhluti jarðar hitni hraðar en suðurhlutinn.

Vísindamenn benda sem fyrr á að helsta ástæðan fyrir vaxandi hita í heiminum sé mengun að völdum gróðurhúsalofttegunda og búast við að hitinn haldi áfram að aukast. Aukinn hiti hafi meðal annars áhrif á dýralíf á norðurslóðum og vísindamenn segja ísbirni sérstaklega viðkvæma fyrir breytingunum. Heimkynni þeirra minnki með minnkandi heimskautaís og þar með minnki möguleikar þeirra á að afla sér fæðu og fjölga sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×