Erlent

Birtu myndband af árás á Abu Ghraib

Al-Qaida liðar í Írak hafa sent frá sér myndband þar sem árás þeirra á Abu Ghraib fangelsið nærri Bagdad fyrr á árinu er útlistuð. Markmið árásarinnar var að sprengja sér leið inn í fangelsið og frelsa fanga ásamt því að valda Bandaríkjamönnum sem mestu tjóni.

Tugir al-Qaida liða blésu til árásar á Abu Ghraib fangelsið, vestur af Bagdad annan apríl síðastliðinn, en fangelsið komst í heimsfréttirnar á síðasta ári þegar upp komst að fangar þar hefðu verið beittir harðræði og pyntingum. Árás al-Qaida var hrundið en einn árásarmannanna lést og ríflega 50 hermenn og fangar særðust í áhlaupinu.

Á myndbandi sem birt var á heimasíðu íslamskra uppreisnarmanna fyrr í vikunni er greint frá því hvernig árásin var skipulögð og sýndar myndir af vettvangi átakanna. Þar að auki renna yfir skjáinn þær myndir af föngum í Abu Ghraib sem fyrir löngu eru orðnar frægar um allan heim.

Fram kemur á myndbandinu að markmiðið með árásinni hafi annars vegar verið að frelsa uppreisnarmenn og hins vegar að valda Bandaríkjamönnum sem mestum skaða og þannig blása baráttuanda í vígamenn í Írak. Samkvæmt myndbandinu var ætlunin að ráðast á fangelsið á fjórum stöðum. Sprengja átti gat á fangelsisvegginn á tveimur stöðum með öflugum bílsprengjum og í kjölfarið senda fleiri farartæki hlaðin sprengiefni inn um götin. Á tveimur öðrum stöðum áttu fsvo ótgönguliðar að skjóta á fangelsið með eldflaugum og dreifa þannig athygli öryggissveita.

Myndir af eldflaugaárásunum sjást á myndbandinu ásamt mönnum sem sagðir eru þeir sem óku sjálfsmorðsárásarbílunum að fangelsinu. Bandarísk yfirvöld hafa ekki greint frá því hvernig atburðir þróuðust þennan dag og því er ekki vitað hversu nákvæmlega árásarmennirnir fylgdu áætluninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×