Erlent

Enn eitt ránið í Svíþjóð

Peningaflutningabíll frá Securitas var rændur skammt frá Södertälje, suður af Stokkhólmi, í Svíþjóð nú í morgun. Ræningjarnir notuðu sjálfvirka riffla og sprengjur við ránið sem er að verða algeng aðferð við rán í Svíþjóð. Upp úr klukkan fjögur í morgun stöðvuðu tveir vopnaðir menn peningaflutningabílinn og hleyptu af skotum til að þvinga öryggisverðina út úr bílnum. Þeir sprengdu síðan upp peningageymslu bílsins með kröftugu sprengiefni þannig að aftari hluti bílsins nær hvarf og er gjörónýtur. Öryggisverðirnir urðu þó ekki fyrir líkamlegum meiðslum.

Bíll ræningjanna fannst alelda við ránsstaðinn og vitni segjast síðan hafa séð leigubíl hverfa af vettvangi á miklum hraða. Lögreglan hefur sett upp vegatálma á stóru svæði til að freista þess að finna bílinn og eru miklar umferðatafir af þeim sökum til og frá Stokkhólmi.

Rán sem þetta eru að verða æ algengari í Svíþjóð og lögreglu hefur reynst erfitt að hafa hendur í hári ræningja. Aðeins er mánuður síðan öryggisverðir fóru í verkfall til að þrýsta á um aukið öryggi í peningaflutningum. Skilyrði sem stjórnvöld settu þá, eins og að litasprengjur sem eyðileggja peninga við rán væru í öllum peningatöskum og peningaflutningabílum, virðast þó ekki hafa verið framfylgt.

Ekki er ljóst hversu miklu fé ræningjarnir hafa náð með sér í þetta skiptið, en í undanförnum ránum hefur það hlaupið á milljónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×