Erlent

Allt í hnút

Flest bendir til að lokatilraun til að berja saman fjárlagafrumvarp fyrir Evrópusambandið fari út um þúfur. Á maraþonfundum næstu tvo dagana munu leiðtogar sambandsríkjanna reyna að ná saman.

Öll spjót standa á Tony Blair, forsætisráðherra Breta. Hann vill landa fjárlagafrumvarpi fyrir árin 2007 -2013 áður en Bretar láta forsæti sambandsins af hendi um árámótin. Tillögur hans hingað til hafa hins vegar fallið í grýttan jarðveg, enda gera þær ráð fyrir að styrkir til fátækari ríkja sambandsins verði lækkaðir verulega, án þess að Bretar gefi eftir nema lítinn hluta af endurgreiðslum sínum frá sambandinu. Margret Thatcher samdi á sínum tíma um endurgreiðslurnar, sem nema tugum milljarða á ári, en nú eru fórkólfar annarra ríkja sambandsins á því að þær séu barn síns tíma og Bretar verði að gefa stóran hluta þeirra eftir. Hingað til hafa þeir aðeins boðið hluta af því sem önnur ríki krefja þá um.

Eins og svo oft áður í málefnum Evrópusambandsins stendur deilan líka á milli stórveldanna Frakklands og Bretlands. Á meðan Frakkar eru harðastir allra í að Bretar verði að gefa eftir endurgreiðslurnar, fara Bretar fram á að landbúnaðarstyrkir til Frakka verði lækkaðir verulega. Sem stendur fá franskir bændur stóran hluta af landbúnaðarstyrkjum ESB og þarlend stjórnvöld mega ekki heyra á það minnst að því verði breytt.

Líklegt er talið að Jacques Chirac forseti Frakklands muni hitta Blair einslega í Strasbourg á morgun, þar sem farið verður yfir málin.

Blair viðurkenndi í dag að frumvarpið héngi á bláþræði. Hann sagðist þó enn gera sér vonir um að sátt næðist um nýtt frumvarpo um helgina, en varaði við of mikilli bjartsýni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×