Erlent

Kjörstaðir opnir lengur

Kjördagur í Írak hefur gengið betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Kjörsókn þingkosningunum var miklu betri en búist var við og opnunartími kjörstaða var framlengdur um klukkustund af þeim sökum. Minnst tvær vikur eru í að endanleg úrslit liggi fyrir.

Kjörstöðum lokaði klukkan þrjú í dag, en ekki tvö eins og til stóð. Ástæðan er miklu meiri kjörsókn en búist hafði verið við. Engar tölur liggja fyrir að svo stöddu, en talið er að meira en tíu milljónir manna hafi greitt atkvæði í kosningunum. Þá bendir flest til að Súnnítar hafi flykkst á kjörstaði, en eitt helsta áhyggjuefni ráðamanna í Írak í aðdraganda kosninganna var að Súnnítar myndu sniðganga þær eins og kosningar um stjórnarskrá landsins.

Stjórnmálaskýrendur vonast til að góð kjörsókn þeirra verði til þess að eining ríki í landinu eftir þingkosningarnar.

Uppreisnarmenn hafa þó reynt sitt til að spilla kjördeginum. Tugir árása hafa verið gerðar um allt land, en í fæstum tilvikum hefur orðið mannfall. Þó hafa minnst tveir fallið og nokkrir særst í borgunum Baghdad og Ramadí. Þá drápu lögreglumenn í Baghdad uppreisnarmann sem talið er að hafi ætlað að gera sjálfsmorðsárás.

Það hve vel kosningarnar hafa gengið fyrir sig má líklega að miklu leyti rekja til víðtækrar öryggisgæslu í kringum kjörstaði. Meira en hundrað og fimmtíu þúsund írakskir lögreglumenn og þjóðvarðliðar hafa staðið vaktina í allan dag.

Stjórnmálamenn í Írak hafa hver af öðrum keppst við að lofa þróun mála í dag og allir eru þeir sammála um að kosningarnar séu stórsigur fyrir lýðræðið í landinu.

Endanleg úrslit kosninganna verða þó ekki ljós í bráð. Kjörstjórn tilkynnti í dag að líklega væru minnst tvær vikur uns endanlegar tölur lægju fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×