Erlent

Viðurkennir að upplýsingarnar hafi verið rangar

George Bush bandaríkjaforseti viðurkenndi í dag að upplýsingar um gereyðingarvopn Íraka hefðu að mestu leyti verið rangar. Það breytti því ekki að Bandaríkjamenn mættu ekki draga herlið sitt burt fyrr en stöðugleiki kæmist á í landinu.

Í ræðu í Washington í dag sagði Bush ljóst að leyniþjónustan hefði brugðist í aðdraganda innrásarinnar í Írak. Flest öll gögn um meinta gereyðingavopnaeign Íraka hefðu reynst röng. Sem kunnugt er voru gerayðingarvopnin ein stærsta forsendan fyrir innrásinni, en Bush sagðist þó enn sannfærður um réttmæti innrásarinnar. Heiminum hafi stafað ógn af Saddam Hússein og honum hafi þurft að koma frá völdum. Bush sagðist þó ætla að sjá til þess að leyniþjónustan myndi ekki aftur gera viðlíka mistök og í aðdraganda innrásarinnar. Þá ítrekaði Bush þá skoðun sína að Bandaríkjamenn mættu ekki né gætu hlaupist undan merkjum og dregið herlið sitt burt áður en stöðugleiki væri kominn á í Írak.

Það hvenær Bandaríkjamenn myndu byrja að fækka í herliði sínu færi alfarið eftir því hvenær írakskar öryggissveitir yrðu reiðubúnar til að taka við.

Samkvæmt nýrri könnun Gallup, CNN og USA Today eru 59% Bandaríkjamanna óánægðir með framgöngu Bush í íraksmálinu. Andstaðan við aðgerðir Bandaríkjamanna þar hafa aldrei mælst meiri í könnunum þessara miðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×