Erlent

Segir helförina sögusögn

MYND/AP

Helförin er sögusögn sem var notuð sem átylla til að skapa gyðingaríki í hjarta hins íslamska heims. Þetta sagði forseti Írans í morgun og tókst með því enn og aftur að fá leiðtoga heimsins upp á móti sér.

Mahmoud Ahmedinajad hefur ekki setið lengi sem forseti Írans. Honum hefur engu að síður tekist að baka sér óvild um allan heim í þrígang með ummælum sem eiga sér vart hliðstæðu hjá leiðtoga ríkis undanfarna áratugi. Í október sagði hann að réttast væri að má Ísraelsríki út af landakortinu og í síðustu viku sagði hann að flytja ætti Ísrael frá Mið-austurlöndum til Evrópu.

Í morgun sagði Ahmedinajad svo helförina vera langlífa sögusögn sem væri heilagri en guð almáttugur. Í landi gyðinga væri í lagi að efast um tilvist guðs, en ef einhver vogaði sér að efast um helförina yrði allt vitlaust. Ummælin lét forsetinn falla í sjónvarpsávarpi í borginni Zahedan í suðausturhluta Írans í morgun. Þar ítrekaði hann þá skoðun sína að Evrópa, Bandaríkin eða Kanada ættu að finna hjá sér landsvæði til að hýsa Ísraelsríki.

Ríkisstjórn Ísraels sendi strax frá sér yfirlýsingum, þar sem alþjóðasamfélagið er hvatt til að opna augun fyrir hættunni sem heiminum stafi af Írönskum stjórnvöldum og möguleikanum á að þau komi sér upp kjarnavopnum. Evrópusambandið hefur fordæmt ummælin og ráðherra Breta fyrir sambandið segir ummæli sem þessi ekki eiga heima í alþjóðastjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×