Innlent

Hreyfihamlaðir fá forgang

Úthlutun á lóðum undir 200 íbúðir í Krikahverfi í Mosfellsbæ hófst í gær. Sá hátturinn verður hafður á, í fyrsta sinn á Íslandi svo vitað sé, að hreyfihömluðum og fjölskyldum þeirra er veittur forgangur að umsóknum um fjögur einbýlishús víðs vegar í hverfinu.

Markmiðið með því er að gera hreyfihömluðum kleift að byggja hús sem hannað er frá upphafi með þarfir þeirra í huga og auðveldar þeim því að lifa eðlilegu heimilislífi, að sögn Haraldar Sverrissonar, formanns skipulags- og byggingarnefndar.

Áætlað er að samanlagður kostnaður vegna framkvæmdanna í Krikahverfi verði um átta milljarðar og að fólksfjölgun í Mosfellsbæ verði um átta prósent þegar hverfið er fullbyggt.

Gert er ráð fyrir 68 einbýlishúsum í hverfinu, sex parhúsum, átta raðhúsum sem í verða alls 31 íbúð og fimm fjölbýlishúsum sem verða alls með 83 íbúðum. Hægt verður að byggja á lóðunum 1. júlí á næsta ári. Krikahverfið liggur að Vesturlandsvegi til vesturs, Reykjavegi til norðurs, landi Teigs til austurs og Lágafelli til suðurs þar sem við tekur gróið skógræktarsvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×