Innlent

Gengur af bekkjakerfinu dauðu

Forseti Alþingis tók við undirskriftum á annað hundrað reiðra framhaldskólakennara á Austurvelli í dag. Stytting á námi til stúdentsprófs gengur af bekkjarkerfinu dauðu segja kennarar.

Kennararnir úr fimm skólum, Verslunarskólanum, Kvennaskólanum og Menntaskólunum í Reykjavík og við Sund, gengu fylktu liði sem leið lá frá MR að Alþingishúsinu við Austurvöll. Þar hittu þeir fyrir Sólveigu Pétursdóttur, forseta Alþingis, sem tók við undirskriftarlistum og hlustaði á umkvartanir kennara. Þeir telja styttingu námstíma til stúdentspróf vera dauðadóm yfir bekkjakerfi í framhaldskólum eins og við þekkjum það. Á sama tíma var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra norðan heiða og tók við samskonar mótmælum og undirskriftum frá kennurum við Menntaskólann á Akureyri.

Málið hefur vakið upp hörð viðbrögð og farið hefur verið fram á utandagskrárumræðu um styttingu námstíma á Alþingi. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, gerði það vegna þess „vandræðagangs", eins og hann kallar það, sem verið hafi á málinu hjá menntamálaráðherrum undanfarinna ára. Hann segist styðja almennt styttingu námstíma til stúdentsprófs en vill fyrst og fremst styðja við flæðið á milli grunnskólanna og framhaldsskólanna. Björgvin segir þess misskilnings gæta í nálgun menntamálaráðherra að annað hvort verði bekkjarskólunum leyft að hafa sitt fjögurra ára nám í friði eða þeim breytt í áfangaskóla. Um það snúist málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×