Innlent

Eldsvoði á Schiphol-flugvellinum

Ellefu manns létu lífið og fimmtán slösuðust í eldsvoða í fangageymslu á Schiphol-flugvelli í Amsterdam í nótt. Flestir þeirra sem létust voru fíkniefnasmyglarar eða ólöglegir innflytjendur.

Um þrjú hundruð og fimmtíu manns voru í haldi í fangelsinu á Schiphol-flugvelli, en rúmlega fjörutíu fangar voru í álmunni þar sem eldurinn kviknaði. Þeir sem létust voru fangar af ýmsu þjóðerni, sem biðu eftir að verða framseldir frá Hollandi.

Upptök eldsins eru enn ókunn, en hollensk yfirvöld rannsaka meðal annars hvort einhver fanganna kunni að hafa kveikt hann. Eldurinn breiddist hratt út og gekk erfiðlega að slökkva hann, en í hópi þeirra sem slösuðust voru lögreglu- og slökkviliðsmenn og eru nokkrar alvarlega slasaðir. Hollenska sjónvarpið hafði það eftir einum fanga að fangaverðir hefðu hundsað viðvaranir um eldinn og ekki opnað dyr að geymslunni, þótt þar væri mikill reykur, fyrr en allt of seint.

Piet Hein Donner, dómsmálaráðherra Hollands, sagði að á þessari stundu væri ekki hægt að segja til um upptök eldsins. Eldurinn hefði þó átt upptök sín í kjallaranum. Verðirnir hefðu gert sitt besta í stöðunni en fleiri verðir voru á vakt en venjulegt vegna fjölda fanga. Rannsókn hefur nú þegar hafist vegna eldvoðans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×