Erlent

Nafngiftir hafa áhrif á lyktarskyn

Nafngiftir hafa áhrif á hvernig við skynjum lykt af ólíkum hlutum. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem greint er frá á vefsíðu BBC. Vísindamenn við Oxford-háskóla hafa komist að því að fólk upplifir lykt á jákvæðari hátt eftir því hvert nafnið á uppsprettu lyktarinnar er. Í tilraun sem þeir gerðu báðu þeir sjálfboðaliða um að þefa af cheddar-osti. Þeir sem þefuðu af sýnum merktum "ostur" voru hæstánægðir á meðan þeir sem ráku nefið í glas með sömu lykt en merkt "svitalykt" kvörtuðu sáran undan óþefnum. Þeir sem þefuðu af glasi sem merkt var "ostur" en engin sérstök lykt var í kváðust engu að síður hafa fundið angan af osti. Mælingar á heilastarfsemi þátttakendanna staðfestu upplifunina, mikil virkni mældist í þeim stöðvum heilans sem tengjast lyktarskyni þegar þefað var af raunverulegum osti og aðeins litlu minni þegar þefað var af andrúmslofti merktu "ostur". Vísindamennirnir telja að betri skilningur fáist á afleiðingum ýmissa sjúkdóma með rannsóknunum. Oft skaðast heilastöðvar fólks sem lendir í slysi og í framhaldinu verða breytingar á mataræði þess svo að það fitnar meira en góðu hófi gegnir. Vera má að breytingar á lyktarskyni kunni að tengjast þessu. Auk þess geta niðurstöðurnar gagnast matar- og drykkjarframleiðendum og hvatt þá til að vanda sig sérstaklega við nafngiftir á afurðum sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×