Erlent

Ástralir styðja Indónesa í baráttu

Ástralar munu gefa Indónesum 50 þúsund skammta af lyfinu Tamilflu til þess að hjálpa þeim að berjast við fuglaflensu sem þegar hefur dregið sex manns til dauða í Indónesíu. Frá þessu greindi utanríkisráðherra Ástralíu í dag. Ástralir lofuðu að greiða fyrir tíu þúsund skammta af lyfinu á föstudag og í dag bættu þeir um betur og lofuðu 40 þúsund skömmtum til viðbótar enda hafa þeir vaxandi áhyggjur af því að fuglaflensuveiran berist til Ástralíu náist ekki að ráða niðurlögum hennar í Indónesíu. Fuglaflensa hefur nú fundist í fiðurfénaði í tveimur þriðju af héruðum Indónesíu og sem fyrr segir hafa sex látist af völdum H5N1-stofnins sem er mönnum hættulegur. Þá er á annan tug manna á sjúkrahúsi með einkenni sem svipar til einkenna fuglaflensu en vonast er til að lyfið nýtist í baráttunni gegn sjúkdómnum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mun sjá um að dreifa lyfjunum þannig að hættan á því að veiran breiðist frekar út sé sem minnst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×