Sport

Bjarnólfur orðinn góður strákur

"Ég lagði upp með það í sumar að reyna að fækka spjöldunum og það kom mér á óvart hversu mörg spjöld ég var kominn með eftir fyrri umferð. Ég taldi mig hafa hagað mér ágætlega en stundum leið mér eins og ég væri kominn með einhvern stimpil á mér," sagði Bjarnólfur Lárusson, leikmaður KR, sem fékk fimm gul spjöld í fyrri umferð Landsbankadeildarinnar en ekkert í þeirri seinni. Alla tíð hefur Bjarnólfur, sem er fæddur og uppalinn Eyjamaður, þótt harður í horn að taka. Eftir brottrekstur gegn ÍA á KR-vellinum í byrjun júlímánaðar sagði Bjarnólfur hingað og ekki lengra og fékk ekki gult spjald eftir það í deildarkeppninni. "Þetta er býsna góður árangur þó ég segi sjálfur frá og ég vona að þessi jákvæða þróun haldi áfram. Ég var nokkur ár í Englandi og það voru ákveðin viðbrigði að koma heim á sínum tíma. Þar var meiri harka og djöflagangur,"sagði Bjarnólfur. Aðspurður um knattspyrnuna hjá KR í sumar sagði Bjarnólfur: "Við spiluðum ekki nógu vel í upphafi og því náðu hvorki ég né aðrir í liðinu að sýna okkar rétta andlit í byrjun. Menn tóku slöku gengi liðsins persónulega og við brugðumst okkar fyrrum þjálfara [Magnúsi Gylfasyni] og því börðum við okkur saman í lokin og unnum meðal annars fjóra leiki í röð.""Ég held að það sé mjög gott fyrir íslenskan fótbolta og gott fyrir KR að fá mann eins og Teit Þórðarson til að taka við þjálfun liðsins. Hann kemur með nýja sýn og mér líst mjög vel á þá uppsetningu að hann skuli sjá um þjálfun hjá liðinu sama hvort menn eru sex ára eða þrjátíu og sex ára. Í lok samtals blaðamanns við Bjarnólf sagði Eyjamaðurinn að það kæmi sér á óvart hversu fólki utan KR væri illa við félagið. "Ég vissi af því að KR væri ekki vinsælasta félagið en þessi illindi gagnvart félaginu eru meiri en ég hélt."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×