Innlent

Vanhæfi hjá Samkeppniseftirliti

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, hefur lýst yfir vanhæfi til að fjalla um samruna Burðaráss og Straums fjárfestingarbanka. Gylfi Magnússon, formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins, segir það byggja á því að hann sé hluthafi í öðru þessara félaga. Samkvæmt heimildum Markaðarins er Páll Gunnar hluthafi í Burðarási. Þegar forstjórinn lýsir yfir hugsanlegu vanhæfi í málum sem þessum verða allir undirmenn hans sjálfkrafa vanhæfir til að fjalla um málið. Eru þá fengnir utanaðkomandi aðilar til að vinna málið áfram. Samkeppniseftirlitið þarf að samþykkja þennan samruna áður en hann tekur formlega gildi, en hluthafar samþykktu sameiningu félaganna í síðustu viku. Fjármálaeftirlitið hefur þegar samþykkt að Burðarás sameinist Straumi. Gylfi segir að Friðrik Már Baldursson hafi verið fenginn til að vinna að þessu máli fyrir stjórn Samkeppniseftirlitsins og sé þegar byrjaður. Hann hafi kallað til sín lögfræðing til aðstoðar og muni leggja málið fyrir stjórn Samkeppniseftirlitsins. Öll meiriháttar mál þurfi að koma til afgreiðslu stjórnar og þessi samruni flokkist væntanlega sem meiriháttar mál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×