Erlent

Ástandið batnar í New Orleans

Ástandið í New Orleans er loksins farið að skána eftir að þúsundir þjóðvarðliða komu þangað í gærkvöldi með vistir og vopn. Reiðin kraumar meðal íbúa Suðurríkjanna vegna afskiptaleysis stjórnvalda, sem skildu tugþúsundir eftir bjargarlausar í marga daga eftir að fellibylurinn lagði borgina í rúst. Nú eru sex dagar síðan Katrín skall á suðurströnd Bandaríkjanna. Vitað var að eyðileggingin yrði gríðarleg og milljón manns flúðu New Orleans dagana fyrir komu Katrínar. Stór hluti íbúa borgarinnar er fátækur og hafði einfaldlega ekki efni á að koma sér burt. Jafnvel þótt þeir ættu bíl. Ellilífeyriþegi einn benti á að í lok mánaðarins ættu þeir ekki mikið. Hann hefði aðeins átt fjóra dali og 25 sent sem hefðu dugað honum skammt til að flýja borgina. Þetta þýddi að tugþúsundir urðu innlyksa í borginni bjargarlausar og enn veit enginn hversu margir fórust í hamförunum og hversu margir hafa látist í kjölfarið vegna þess að þeir fengu enga aðstoð. Fjöldi þjóðvarðliða kom til borgarinnar í dag og í gær og hafa þeir unnið að því að koma vistum til borgarbúa og að því að koma lögum og reglu á í borginni að nýju en glæpalýður hefur nýtt sér aðstæður og rænt og ruplað, nauðgað og myrt. Lögregluþjónn í New Orleans segir öll raftæki farin og skartgripaborð í búðum hafa verið brotin og allt hirt. Þetta gilti þó ekki um alla, sumir nýttu eigur sínar til að aðstoða aðra. Margir hafa orðið til að gagnrýna hæg viðbrögð alríkisstjórnarinnar og segja að viðbrögðin hefðu orðið önnur ef ekki hefði verið um að ræða svart, fátækt fólk. Rapparinn Kanye West olli til dæmis uppnámi í beinni útsendingu á NBC-sjónvarpsstöðinni þar sem stjörnufans safnaði fé til styrktar fórnarlömbum flóðanna. Þar sagði hann að George Bush Bandaríkjaforseta væri sama um svarta. Bandaríkjaforseti ferðaðist um flóðasvæðin í gær og viðurkenndi að björgunarstarf hefði ekki gengið sem skyldi. En hann neitaði því að fólkið hefði gleymst. Bandaríkjamenn yfirgæfu ekki samborgara sína í nauðum og alríkisstjórnin myndi standa sína vakt. Þá sagði hann að þar sem viðbrögðin hefðu ekki verið sem skyldi yrði gripið í taumana og á þeim stöðum þar sem brugðist hefði verið við yrði bætt í. Bandaríkjamenn hefðu skyldum að gegna hvarvetna við strönd Mexíkóflóa og menn myndu ekki unna sér hvíldar fyrr en allt væri komið í samt lag og verkinu lokið. Bush svaraði ekki spurningum fréttamanna um það hvers vegna það hefði tekið svo langan tíma að koma björgunarstarfi af stað. Margir hafa verið fluttir til Texas með rútum í dag, en enn bíða um fimm þúsund manns í Superdome-íþróttahöllinni við ólýsanlegar aðstæður. Ráðstefnumiðstöð borgarinnar er einnig full af fólki ennþá sem gæti þurft að bíða þó nokkuð enn eftir að komast burt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×