Erlent

Myndbandið talið mánaðagamalt

Myndband þar sem næstráðandi al-Kaída samtakanna og einn tilræðismannanna frá því í árásunum á Lundúnir í júlí ræða um hryðjuverkin hefur vakið hörð viðbrögð í Bretlandi. Myndbandið birtist á sjónvarpsstöðinni al-Jazeera í gær en þar réttlætir Mohammed Sidique Khan, sjálfsmorðssprengjumaðurinn frá Edgware Road, gerðir sínar. Hann sagði að óbreyttir borgarar ættu slíka meðferð skilda þar sem þeir hefðu kosið ríkisstjórnir sem síðan stæðu fyrir óhæfuverkum í Írak. Í sömu mynd segir Ayman al-Zawahri, hægri hönd Osama bin Laden, að Vesturlönd hafi þarna fengið að kenna á eigin meðulum og fleiri slíkar árásir séu í bígerð. Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, var heitt í hamsi í gær þegar hann sagði að "engin afsökun, engin réttlæting, væri fyrir hryðjuverkum af neinu tagi," og benti auk þess á að fórnarlömb þessara sjálfskipuðu talsmanna íslam hefðu einkum verið múslímar. Formælendur breskra múslimasamtaka hafa tekið í svipaðan streng. Sérfræðingar gjörkanna nú innihald myndbandsins og reyna að ráða í aldur þess. Vinir Khans segja hann líta allt öðruvísi út á myndunum en í júlí síðastliðnum og telja þær því allt að árs gamlar. Ekki er talið öruggt að þær sýni tengsl á milli sprengjumannanna og al-Kaída.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×