Erlent

Bush lofar bót og betrun

MYND/AP
Björgunaraðgerðir eftir að fellibylurinn Katrín reið yfir suðurströnd Bandaríkjanna eru óviðunandi. Þetta sagði George Bush Bandaríkjaforseti í dag skömmu áður en hann hélt á hamfarasvæðin. Forsetinn sagði fjölmargt fólk hafa lagt hart að sér við störfin en það hefði ekki dugað. Forsetinn hefur sætt vaxandi gagnrýni fyrir viðbrögð stjórnvalda við hamförunum, en eins og greint hefur verið frá ríkir óöld og ringulreið á mörgum stöðum í suðurríkjum Bandaríkjanna, þar á meðal New Orelans þar sem fjölmargir bíða þess enn að vera fluttir burt. Bush lofaði bót og betrun í dag og sagði milljónir lítra af hreinu vatni og milljónir tonna af mat væru á leið á hamfarasvæðin og að unnið væri að því að tryggja öryggi á svæðinu, en glæpamenn hafa rænt og ruplað og jafnvel myrt fólk á svæðinu sem reynt hefur að stöðva þá. Ray Nagin, borgarstjóri New Orleans, hikaði ekki við að gagnrýna forsetann fyrir skriffinnsku og seinagang í dag og sagði hann ekki hafa dregið lappirnar svo eftir árásirnar 11. september 2001 eða í aðdraganda innrásarinnar í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×