Innlent

DV hafi brotið gegn siðareglum

DV braut alvarlega gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands, samkvæmt úrskurði siðanefndar félagsins, vegna forsíðufréttar um starfsmann Landspítalans sem var á gjörgæsludeild með hermannaveiki. Í lok maí síðastliðins birti DV frétt um að starfsmaður Landspítalans hefði veikst af hermannaveiki á Ítalíu, en birt var mynd af honum bæði á forsíðu blaðsins og inni í því auk þess sem greint var frá nafni konu hans. Fleiri fréttir af veikindunum fylgdu í kjölfarið. Sonur mannsins kærði umfjöllunina til siðanefndar Blaðamannafélagsins, en í kæru kom fram að sjúklingurinn væri enn þungt haldinn, í öndunarvél og ekki úr lífshættu. Kærandi taldi að með greinum blaðsins hafi DV haft sorg fjölskyldunnar að féþúfu og um leið aukið mjög á þjáningar hennar. Nafn- og myndbirtingin hafi ekkert haft með almannahagsmuni að gera. DV taldi sig hafa sýnt viðkomandi einstaklingi skilning og nærgætni í allri umfjöllun sinni, en sum veikindi séu þess eðlis að fréttir af þeim og því hverjir hafi fengið ákveðna sjúkdóma séu eðlilegar. Siðanefnd Blaðamannafélagsins komst að þeirri niðurstöðu að nafn sjúklingsins hefði verið birt í heimildarleysi ásamt mynd af honum og að málavextir hefðu ekki bent til þess að nauðsyn hefði borið til að almenningur vissi hver sjúklingurinn væri né hvernig hann liti út. Nefndin telur að blaðið hafi aukið þjáningar sjúklingsins og aðstandenda hans. Nefndin undirstrikar að gæta þurfi sérstakrar varkárni í umfjöllun um sjúklinga og að virða beri einkalíf þeirra. Í úrskurði siðanefndar Blaðamannafélagsins segir að ritstjórn DV hafi brotið gegn siðreglum félagsins og að brotið sé mjög alvarlegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×