Sport

Ósanngjarn sigur Vals á Skaganum

Valur vann ÍA 2-1 í stórkostlega dramatískum leik í Landsbankadeld karla í knattspyrnu í kvöld. Garðar Gunnlaugsson skoraði bæði mörk Valsmanna, það fyrra á 49. mínútu þegar hann kom Val yfir 1-0 en sigurmarkið á 84. mínútu. Andri Júlíusson jafnaði metin á 60. mínútu fyrir ÍA sem voru talsvert betri aðilinn í leiknum og úrslitin geta því ekki talist sanngjörn. Ólafur Þórðarson þjálfari Skagamanna var hundsvekktur í lokin en ánægður með leik sinna manna."Við vorum klárlega betri aðilinn í leiknum og það er hundfúlt að tapa þessu. En þetta var besti leikur okkar í sumar." sagði Ólafur í viðtali við Sýn í beinni útsendingu í leikslok. Skagamenn óðu í færum og áttu meðal annars 4 skot í stöng og slá. Sigurmark Valsmanna þótti umdeilt. Garðar fékk laglega stungusendingu frá Guðmundi Benediktssyni og skaut boltanum í þverslána þaðan sem boltinn fór niður við marklínu og skoppaði þaðan út aftur. Kristinn Jakobsson dómari dæmdi mark sem í sjónvarpsendursýningu virðist vera rétt ákvörðun. Bjarka Guðmundssyni markverði Skagamanna var svo vikið af velli á 95. mínútu fyrir að bregða Guðmundi Ben sem var að fara fram hjá honum. Bjarki var kominn út á miðjam vallarhelming Skagamanna í viðbótartíma þegar Guðmundur fékk boltann og féll hann við. Bjarki varð æfur og vildi meina að Guðmundur hefði verið að fiska hann út af þar sem hann var aftasti Skagamaðurinn á vellinum. Það er því ljóst að Bjarki verður á leikbanni inni hjá ÍA eftir að aganefnd KSÍ kemur næst saman á þriðjudag. Valsmenn eru enn í 2. sæti deildarinnar en nú 9 stigum á eftir toppliði FH með 30 stig eftir 13 leiki en ÍA í 3. sæti með 20 stig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×