Innlent

Mikið um veggjalýs hér á landi

Ólafur Sigurðsson hjá Meindýraeyðingu heimilanna segir óvenju mikið hafa verið um veggjalús í húsum Íslendinga síðustu misserin og vill brýna fyrir fólki að það sé á varðbergi gagnvart henni á ferðalögum erlendis. Auðvelt er að sjá ummerki lúsarinnar. "Ég hef verið í þessu í átta ár og fékk lengst af aldrei meira en eitt tilvik í mánuði." Hann segir þetta nú hafa verið nokkur tilvik í mánuði í meira en hálft ár og hann veit til þess að fleiri meindýraeyðar hafi verið að fást við hana. Þótt veggjalúsin berist hingað erlendis getur hún breiðst út hér á landi. Hún fer með veggjum húsa og lætur sig detta niður úr loftinu þegar hún finnur fyrir líkamshita og andardrætti. Síðan gerir hún sér bæli í rúminu þar sem hún nærist með því að sjúga blóð úr sofandi fólki að næturlagi. Sé fæðan næg getur hún fjölgað sér mjög hratt. Ólafur vill að fólk skoði rúm og veggi á gistihúsum erlendis og leiti eftir umerkjum lúsarinnar. "Þetta eru margir litlir dökkir blettir sem geta orðið álíka stórir og nöglin á litlafingri." Fullvaxin veggjalús er fimm millimetrar og sést vel með beru auga. Þær eru rauðbrúnar að lit, en eru þó ljósar í upphafi æviskeiðsins en dekkjast með tímanum. Kvenlúsin getur verpt fimm hundruð eggjum um ævina. Þær koma yfirleitt aðeins fram að næturlagi. Bit veggjalúsarinnar varir í um fimm mínútur, en að því loknu fer hún aftur í bæli sitt. Bitið er ekki talið hættulegt en getur valdið kláða og bólgum. Auk óþægindanna fylgja þeim óhreinindi og jafnvel lykt. Hún getur líka skotið fólki sem hefur verið að heiman í nokkurn tíma skelk í bringu, en dæmi eru þess að fólk nýkomið úr fríi vakni þegar mikill fjölda hungraðra lúsa sest að snæðingi á nánast sama tíma. Veggjalýs voru algengar víða á Vesturlöndum en var að mestu útrýmt á 5. og 6. áratug síðustu aldar með notkun eiturefnisins DDT sem nú hefur verið bannað. Hún hefur nú verið að breiðast út á ný síðustu árin vegna aukinna ferðalaga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×