Innlent

Djöfulleg breyting fyrir aldraða

"Þetta er djöfulleg breyting fyrir gamla fólkið," segir Eggert Magnússon íbúi í Árbæ um breytt leiðakerfi Strætó bs. Hann beið eftir strætisvagni í Rofabæ þegar Fréttablaðið hitti hann. Hann er níræður og segist vera algjörlega háður strætisvögnunum til að komast leiðar sinnar. "Þetta nýja kerfi er svo margfalt verra heldur en það sem var áður, sérstaklega fyrir gamla fólkið" segir hann. Samkvæmt gamla leiðarkerfinu voru vagnar 10 og 11 hringleiðir um Árbæjarhverfin sem tengdu saman Selás og Breiðholt og enduðu á Hlemmi. Leið 110 tók Selásbrautina, Rofabæ, Bæjarháls, Ártúnsholt, Miklubraut, Hringbraut, Háskólann og endaði á Lækjartorgi. Með nýja kerfinu voru þessar leiðir lagðar niður en í staðinn kom leið 25 sem fer um Rofabæ í Norðlingaholt og leið 5 sem fer frá Selási um Bæjarháls niður Vesturlandsveg, Miklubraut, Hringbraut niður í Lækjargötu og þaðan upp á Hlemm. "Áður gat ég tekið vagninn í Ártún og þaðan gengu vagnar í allar áttir," segir Eggert. "Nú þarf ég að fara á skiptistöð, þar sem ég þarf að klifra þrjá stiga til að komast í vagninn niður í bæ. Ég sé ekki hvernig gamla fólkið og aðrir sem eru með skerta hreyfigetu eiga að komast þetta, sérstaklega eftir að fer að snjóa og svell sest í stigana. Ég kemst til að mynda ekki niður á Landspítala né í Skeifuna lengur." Á næstu biðstöð í Rofabænum beið Aðalsteinn Guðmundsson. Hann er líka óánægður með nýja leiðakerfið. "Ég er búinn að bíða hér í korter," segir hann. "Ég hefði heldur átt að labba þetta. Það var að öllu leyti miklu þægilegra að hafa gamla kerfið, bæði styttra á biðstöðina og svo þurfti ég ekki að ganga eins langt til að komast í vinnu og úr. Það finnst öllum í mínum kunningjahópi þetta alveg fáránlegar breytingar því við notum ekki strætó nema af því að við þurfum þess."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×