Innlent

Enginn ætti að skrifa undir

Enginn ætti að skrifa undir samning á borð við þann sem Eskimo models gerði við hundruð aukaleikara í mynd Clints Eastwoods sem nú er verið að taka upp á Reykjanesi, segir aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. Verkalýðshreyfingin er tilbúin að aðstoða leikarana við að knýja á um breytingar. Leikararnir fá greiddar 5000 krónur á dag fyrir tólf tíma vinnu, eru ótryggðir og þurfa að greiða tvær milljónir króna í skaðabætur týni þeir nokkrum þeirra leikmuna sem þeim eru afhentir. Hjá Alþýðusambandi Íslands stendur yfir átak gegn undirboðum á vinnumarkaði en þar hafa menn reynt að koma í veg fyrir að erlendum verkamönnum séu greidd lægri laun en íslenskir kjarasmaningar segja til um. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir þetta að nokkru leyti sambærilegt því í þessu tilfelli sé sannanlega um að ræða fyrirtæki sem bjóði upp á starfskjör og laun sem sé ekki í neinu samræmi við það sem gildi á íslenskum vinnumarkaði. En eru samningarnir löglegir vegna þess að þetta eru verktakasamningar? Halldór segist ekki hafa séð samningana en það sé alveg ljóst að fyrirtækið sé að skáka í því skjóli að með því að gera verktakasamninga komist það undan þeim skyldum sem það annars myndi hafa með launafólk í vinnu á grundvelli ráðningarsamninga. Halldór ráðleggur þeim sem gert hafa þessa samninga að tala saman og reyna á grundvelli samtakamáttar, og þá með aðstoð verkalýðshreyfingarinnar, að koma því þannig fyrir að a.m.k. einhver skynsemi sé í því sem þarna er að gerast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×