Innlent

Vinna stöðvuð vegna mótmælenda

Öll vinna við byggingu álvers Alcoa við Reyðarfjörð hefur verið stöðvuð eftir að hópur mótmælenda fór inn á svæðið í morgun. Þeir hafa meðal annars strengt borða með áletruninni: „Alcoa græðir- Íslandi blæðir.“ Lögreglumenn frá Eskifirði og Neskaupstað eru á vettvangi og handtaka fólk, að sögn Björns S. Lárussonar, samskiptafulltrúa verktakans Bechtel. Mótmælendurnir fóru inn á svæðið á ellefta tímanum í morgun og segir Björn að starfsmönnum hafi þá verið sagt að fara af svæðinu. Í kjölfarið var kallað á lögreglu því þá hafi mótmælendur verið farnir að klifra upp í krana á byggingasvæðinu. Björn segir að öryggisverðir hafi ekki beitt sér gegn mótmælendunum því þeir hafi fyrirskipun um að halda sig fjarri. Vinna liggur því niðri núna á öllu svæðinu og mun það vera svo þar til lögregla hefur náð stjórn á ástandinu. Átta lögreglumenn eru á svæðinu og hafa þegar handtekið níu manns. Björn segir ekkert sjáanlegt tjón hafa orðið af þessum völdum, fyrir utan töfina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×