Innlent

Fordæmir vísindaveiðar Íslendinga

Ian Campbell, umhverfismálaráðherra Ástralíu, vandar Íslendingum ekki kveðjurnar. Hann fordæmdi í morgun vísindaveiðar Íslandinga á hrefnum og sagði að sér blöskruðu veiðarnar. Þær væru rangar og brytu í bága við vilja yfirgnæfandi meirihluta alþjóða hvalveiðiráðsins. Campbell sagði vísindaveiðar ekki réttlætanlegar undir neinum kringumstæðum; löngu væri búið að sýna fram á að ekki væri þörf á að drepa hvali til að rannsaka þá, og að halda öðru fram væri klárlega rangt. Ráðherrann sagði þessa skammarlegu hegðun Íslendinga ganga fram af Áströlum og hann undraðist að Íslendingar kysu að halda vísindaveiðum áfram þrátt fyrir að meirihluti hvalveiðiráðsins hefði lýst viðbjóði sínum á þeim á síðasta ársfundi. Árni Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, segir að erfitt sé að tjá sig um ummæli ráðherrans þar sem hann vill ekki horfast í augu við staðreyndir. Hann segir það rangt hjá ráðherranum að hægt sé að rannsaka hvali án þess að veiða þá og í öðru lagi er það líka rangt að sérstaklega hafi verið fjallað um veiðarnar á fundinum. Hann sagði einnig að erlendir umhverfisráðherrar fjölluðu oft um hvalveiðar til þess að draga athyglina frá vandamálum heima fyrir. Árni sagði Ástralina hafa verið í vandræðum með útblástursmál, kolavinnslu og benti á að ráðherrann ætti að huga að kengúrunum því það væri mjög umdeilt hvernig með þær væri farið. Árni taldi ekki ástæðu til að bregðast við ummælum hans og hann efast um að það sé eitthvað unnið með því að sýna viðbrögð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×